Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:32]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í hans máli að áhersla á kolefnisbúskap og loftslagsmál er vaxandi í landbúnaði, rétt eins og í öðrum greinum matvælaframleiðslu, og um hríð hefur verið í gangi verkefni sem kallast Loftslagsvænn landbúnaður þar sem bændur hafa getað lagt sitt af mörkum í samræmi við þær áherslur og hafa sumir hverjir í raun og veru náð algerlega ótrúlegum árangri í þeirri vegferð.

En þegar við erum að tala um það með hvaða hætti við getum togað allan landbúnaðinn meira í átt að loftslagsvænni sjónarmiðum þá stendur endurskoðun búvörusamninga yfir á þessu ári sem skiptist, eins og hv. þingmaður veit, í fjóra tiltekna kafla. Endurskoðun stendur yfir núna og hef ég fyrst og fremst lagt áherslu á þrjú meginmarkmið þeirrar endurskoðunar; í fyrsta lagi fæðuöryggi, í öðru lagi loftslagssjónarmið og í þriðja lagi að einfalda kerfið almennt og gera það gagnsærra sé þess nokkur kostur. Því viljum við, í samstarfi við bændur, stilla hvatana þannig af í kerfinu — það verður gert í gegnum búvörusamninga — að hvatinn til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu endurspeglist í samningunum sjálfum.