Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Næst langar mig aðeins að víkja að fæðuörygginu. Framleiðsla í landbúnaði hefur verið að dragast saman, bæði í kjötgreinum og garðyrkju, og án frekara fjármagns inn í þessar greinar þá er slík þróun áfram fyrirséð til næstu ára. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Þessi samdráttur hefur síðan aftur mjög neikvæð áhrif á fæðuöryggi, sjálfbærnina og loftslagsmarkmiðin. Til að snúa þróuninni við þá verðum við að sjálfsögðu að bregðast strax við þessu, enda tekur umtalsvert lengri tíma að auka framleiðslu heldur en að draga úr henni. Þannig má gera ráð fyrir að uppbygging framleiðslu sem fer að skila eðlilegum afurðum afköstum taki allt að þrjú til sjö ár, eftir greinum að sjálfsögðu.

Mikil þekking er til staðar þegar kemur að kornrækt á Íslandi. Fjallað hefur verið um hvar best er að stunda kornrækt og með hvaða hætti og við stöndum okkur vel í þeim efnum. Með hækkandi olíuverði í Evrópu og almennt, þá verðum við að vera samkeppnishæf og erum orðin samkeppnishæfari hvað þetta varðar á mörgum sviðum. Við eigum náttúrlega mikið af ónýttu landi og því væri hægt að rækta hér mikið korn, bæði til fóðurs og manneldis, og eins og við þekkjum er korn uppistaðan í kjarnfóðri. Í skýrslu um matvælaöryggi segir að þótt Ísland sé á jaðarsvæði kornræktar megi rækta hér töluvert korn til fóðurs og manneldis. Stríðið í Úkraínu hefur sýnt okkur hversu mikilvægt það er að horfa til fæðuöryggis þjóðarinnar. Kornrækt er fæðuöryggi og auk þess þjóðhagslega hagkvæm. (Forseti hringir.) Þess vegna langar mig að heyra það frá hæstv. ráðherra hvernig þessi áætlun styðji við aukin starfsskilyrði í kornrækt, sem er okkur öllum mikilvæg.