Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:39]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. matvælaráðherra út í fjármálaáætlun varðandi þætti sem snúa að sjávarútveginum. Það er eitt og annað sem ég rak augun í þegar ég fór yfir þennan texta. Í fyrsta lagi þá er ekki að sjá að þingflokkur Vinstri grænna hafi haft mikil áhrif á þessa stefnu. Hann flutti hér allur sem einn stefnu um að auka félagslegan þátt fiskveiðistjórnarkerfisins, eins og þau kjósa að kalla það, úr 5,3% í 8,3%. Það er ekki hægt að sjá nein merki þess í fjármálaáætluninni þannig að það virðast bara vera einhver leiktjöld þegar á hólminn er komið. En mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í endurskoðun veiðigjaldsins, sem er m.a. rætt hér á bls. 59. Er hugmyndin að hækka eða lækka það, eða kannski, eins og hún talaði um í ræðunni og mér myndi finnast ákjósanlegast, að auka veiðar og vaxa út úr vandanum, auka tekjur með þeim hætti? Síðan eru það framlög til Hafró. Ég held að það væri ágætt að fá nánari skýringar á því. Eru einhverjar breyttar áherslur? Menn verða einfaldlega að hafa það í huga að það eru borðleggjandi staðreyndir að allar tegundir sem hafa verið kvótasettar hafa síðan minnkað, aflinn hefur minnkað í kjölfar kvótasetningarinnar, ekki aukist, þannig að stjórnunin hefur ekki verið að gera sig. Og síðan vil ég spyrja út í þessi auknu útgjöld í fiskveiðieftirlit. Það væri áhugavert að fá það fram, eru einhverjar breyttar áherslur? Áherslurnar hafa verið á síðustu árum og jafnvel undir stjórn hæstv. ráðherra á hið smáa í greininni, grásleppubáta, strandveiðibáta. En svo eru kannski augljósir þættir sem þyrfti að taka á, hæstv. ráðherra, sem eru auðvitað þessi vigtarmál, (Forseti hringir.) að vera með þrjár aðferðir við að vigta fisk og einhvern veginn verður það alltaf hagfelldara eftir því sem fyrirtæki stækka.