Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:46]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður veltir sérstaklega fyrir sér framtíðarsýn þá eru það þessi þrjú áherslumál sem ég er með í þessari fjármálaáætlun: Í fyrsta lagi það að auka hafrannsóknir, sem ég hef nú gert grein fyrir nokkrum sinnum í orðaskiptum við hv. þingmann. Í öðru lagi að auka eftirlit í fiskeldi, enda hafa komið fram ítarlegar ábendingar frá Ríkisendurskoðun og fleiri aðilum um mikilvægi þess að bæta eftirlitið í fiskeldinu; og tel ég raunar að við getum ekki beðið eftir því að bæta það. Loks er það það sem fram kom í orðaskiptum mínum við hv. þm. Birgi Þórarinsson áðan og það er framtíðarsýn varðandi uppbyggingu kornræktar í landinu. Það er náttúrlega algjörlega nýr kafli í sögu landbúnaðar hér ef vel tekst til og byggir á góðri og öflugri úttekt og skýrslu um möguleikana sem við eigum í kornrækt. En ég vil að lokum undirstrika hér í orðaskiptum við hv. þingmann að ég tek heils hugar undir mikilvægi þess að gæta vel að gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og tel raunar að það sé ein meginforsenda þess að traust sé og gildi um sjávarútveginn á Íslandi, að það sé sterk tilfinning fyrir því að það sé allt uppi á borðum. Ég hef lagt mikla áherslu á það í minni vinnu og ekki síst í verkefninu Auðlindin okkar sem ég held að sé raunar mikilvægt verkefni í því skyni að auka traust í samfélaginu og með það að markmiði að ná betri sátt í þessum mikilvæga atvinnuvegi.