Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:50]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í fyrsta lagi þá útskýrist þessi breyting milli ára af spretthópsgreiðslunum sem voru á þessu ári en ekki á því næsta. Það skýrir þetta að hluta. Hins vegar erum við, þegar allt dæmið er reiknað, að bæta í við landbúnaðinn með þessum nýju peningum sem falla þarna til kornræktarinnar. Svokallaður vatnshalli er innbyggður í búvörusamninga, sem er ákveðin breyting á milli ára og ég tek undir þær áhyggjur sem margir bændur hafa haft af þeim hluta sem lýtur að því að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum. Það er mikilvægt að það sé partur af því sem nýtur einhvers konar hvata í kerfinu. Við erum núna að skoða það sérstaklega við endurskoðun búvörusamninga og horfum til þess að bændur sem leggja mikla áherslu á loftslag og kolefni njóti þess í ríkari mæli. Endurskoðun gildandi búvörusamninga er núna nýhafin og samtal við bændur um hana, þar sem þessi þáttur er sérstakt áherslumál. Eins og þingheimi er kunnugt er að þessu sinni gert ráð fyrir ákveðnu aðhaldi í öllum ríkisrekstri og þess vegna lagði ég áherslu á það við mína kafla í fjármálaáætlun að þær breytingar sem þar voru lagðar til væru vel rökstuddar. Landbúnaðarmegin lagði ég mesta áherslu á þessa viðbót fyrir kornræktina, vegna þess að ég tel einstakt tækifæri nú til þess að marka í raun og veru þáttaskil í þeim efnum. Síðan, hvað varðar hafrannsóknir og eftirlit með fiskeldi, var það bæði vel rökstutt í skýrslum en líka vænti ég þess að það verði fjármagnað.