Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:58]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og ég er algerlega sammála þingmanninum um mikilvægi þess að við hér, þingheimur og stjórnvöld, hvort sem er heima í Miðfirði eða hér, stöndum með bændum í úrvinnslu á þessu áfalli sem nú hefur riðið yfir. Það liggur fyrir að yfirdýralæknir hefur farið þess á leit við Landbúnaðarháskólann að skoða þessi helstu faglegu álitaefni sem lúta að nýtingu þessara verndandi arfgerða sem verkfæri eða vopn í baráttunni gegn riðu og þar með talið hvernig hægt er að skipuleggja ræktunarstarfið með sem bestum og skýrustum hætti. Ég hef ekki fundið fyrir neinu öðru heldur en að allir landsmenn standi með Miðfirðingum núna. Það að við séum með þá vitneskju að við vitum um þessa verndandi arfgerð er mikilvægt og þar með séu komin skilyrði fyrir því að það sé hægt að rækta upp þolinn stofn og ná þar með lokasigri í baráttunni við riðuna, sem væri náttúrlega stórkostlegt. En hversu langan tíma það tekur er fræðileg spurning. Það er vísindaleg spurning. En við munum a.m.k. tryggja að það sé ekki þannig að athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda hægi á slíku ferli vegna þess að við viljum standa algerlega með bændum í Miðfirði og raunar sauðfjárræktinni allri í því að stemma stigu við þessum vágesti.