Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er svolítið sérkennilegt að hæstv. ráðherra skuli bregðast við með því að hnýta í hæstv. innviðaráðherra þótt hann kunni að hafa gert ýmis mistök sem landbúnaðarráðherra eins og kunnugt er. Enn er hæstv. ráðherra ekki tilbúin að svara almennilega spurningunni um framtíðarsýnina hjá þessari ríkisstjórn, eða hæstv. ráðherra, varðandi kjötframleiðslu á Íslandi og ekki er annað að heyra á hæstv. ráðherra en að vonir standi til hjá ráðherranum að fólk fari að neyta minna kjöts. Við getum sem sagt ekki vænst markaðsátaks fyrir íslenskt lambakjöt eða nautakjöt frá þessari hæstv. ríkisstjórn sem virðist frekar vonast til þess að það dragi úr kjötframleiðslu — og auðvitað stuðningur við greinina eftir því.

Af því að hæstv. ráðherra verður tíðrætt um umhverfisvernd í samhengi við landbúnaðinn þá óttast maður að það sem ríkisstjórnin kynnti sem framtíðarsýn landsins fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow nr. 26 geti verið að raungerast í kerfinu. Þar voru dregnar upp ólíkar sviðsmyndir um framtíðina, þar með talið gert ráð fyrir því að kjötframleiðsla nánast legðist af á Íslandi ásamt álframleiðslu og ýmsu öðru. Og ég spyr: Er einhver hætta á því að leynt og ljóst sé unnið að þessu? En þá er kornrækt nefnd, og ég er auðvitað afskaplega ánægður með það ef menn ætla raunverulega að standa með kornræktinni, en það er ekki hægt að rækta korn, allra síst á Íslandi, öðruvísi en að nota áburð. Er hæstv. ráðherra tilbúin til þess að fallast á alla þá áburðarnotkun sem myndi þurfa til til að auka kornrækt á Íslandi eða er þetta bara einhver fyrirsláttur?