Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:21]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég held að almennt sé kannski ekki heppilegt að stjórnvöld séu mikið að hlutast til um hvað það er sem fólk borðar. Ég held að að jafnaði sé betra að fólk ákveði sjálft hvað það vill hafa í matinn. En eins og ég benti á hér áðan eru ákveðnar tilhneigingar að eiga sér stað í breytingum á því. Heildarneyslan á mat hefur auðvitað verið að aukast undanfarin ár á Íslandi vegna þess að Íslendingum er blessunarlega að fjölga, bæði vegna barnsfæðinga og vegna innflytjenda, þannig að þó að neyslan per íbúa sé á niðurleið er eftirspurnin meiri. Svo eru auðvitað milljónir ferðamanna sem bætast við. Sem svar við spurningunni, hvort ég sem ráðherra sjái fyrir mér að framleiðsla aukist eða dragist saman, þá segi ég: Það fer eftir ýmsu. Framleiðslumagn af kjöti er ekki ákvarðað af mér heldur er það ákvörðun ótal bænda sem bregðast við skilaboðum markaðarins um verð. Þar hefur þróunin verið sú síðan ég tók við í matvælaráðuneytinu að verð á lambakjöti hefur hækkað ríflega og mátti ekki seinna vera miðað við það hvernig afkoma í þeirri grein hefur verið. Það skiptir nefnilega ekki mestu máli hvernig einhver tiltekin tonnatala er í framleiðsluferlinu, það skiptir mestu máli að bændur fái skikkanlegt verð fyrir afurðir sínar og að þeir geti lifað með reisn af starfi sínu. Séu þær forsendur fyrir hendi þá þrífst kröftugur landbúnaður. Þannig að nútímalega nálgunin á framleiðslu er að það séu raunveruleg gæði og virði en ekki að ráðherrar standi hér og ákveði hvað fólk á að borða.