153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Framtíðarsýn utanríkisþjónustunnar er sú að hagsmunir lands og þjóðar séu tryggðir og að Ísland leggi sitt af mörkum til að stuðla að velsæld hvarvetna Í framhaldi af þeim áskorunum sem heimsfaraldurinn setti okkur stöndum við nú frammi fyrir nýjum áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Innrás Rússlands í Úkraínu, aukin hernaðarumsvif og yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda hafa haft djúpstæð áhrif á öryggishorfur í Evrópu. Þetta ástand hefur einnig leitt til nýrra áskorana varðandi önnur mikilvæg verkefni sem falla undir utanríkisráðuneytið, ekki síst hvað varðar þróunarsamvinnu þar sem innrásarstríð Rússlands eykur enn á vanda þeirra þjóða sem teljast til þróunarríkja og var hann ærinn fyrir. Þetta endurspeglast í áherslum áætlunarinnar þar sem gert er ráð fyrir vaxandi umfangi varnartengdra verkefna og þróunarsamvinnu á tímabilinu. Á sama tíma verður leitast við að ná fram hagræðingu þegar kemur að öðrum þáttum utanríkisþjónustunnar.

Vaxandi árvekni og ráðstafana er þörf vegna svonefndra fjölþáttaógna. Forsenda þess að hægt sé að mæta örum breytingum í umhverfi okkar og tryggja viðbragðsflýti er m.a. að tryggja öruggar samskiptaleiðir við okkar nánustu samstarfsríki og styrkja varnaráætlanir Íslands.

Áfram þarf að hlúa að EES-samstarfinu sem er þýðingarmesti samvinnuvettvangur Íslands á sviði utanríkisviðskipta. Þá er brýnt að sinna hagsmunagæslu við helstu vina- og samstarfsríki og tryggja áframhald á öruggum og farsælum samskiptum.

Gert er ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 4, utanríkisþjónusta, lækki á tímabili áætlunarinnar úr 15,1 milljarði árið 2024 í 14,6 milljarða króna árið 2028. Það skýrist að stóru leyti vegna þess að ekki er lokið við nýja áætlun fyrir Uppbyggingarsjóð EES. Því endurspeglar fjármálaáætlun lækkandi framlög eftir því sem verkefnum á grundvelli núverandi áætlunar sjóðsins lýkur. Nemur samdrátturinn tæpum 1,7 milljörðum króna á milli áranna 2023 og 2024 en gera verður ráð fyrir að þetta komi til endurskoðunar þegar lögð verður fram ný áætlun um framlög aðildarríkja til sjóðsins fyrir næsta tímabil. Aðhaldskrafa fyrir tímabilið allt nemur um 784 millj. kr. og verður hún útfærð í fjárlögum hvers árs.

Það eru niðurfellingar framlaga til tímabundinna verkefna eins og þeirra sem snúa að setu Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO, formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og tímabundnum framlögum til varnartengdra verkefna. Á móti hækka framlög til ýmissa verkefna á tímabilinu. Gert er t.d. ráð fyrir að framlög til öryggis- og varnarmála hækki um 930 millj. kr. á tímabilinu til að mæta ýmsum kostnaði vegna varnartengdra verkefna. Þar á meðal er styrking öruggra samskipta milli Íslands og samstarfsþjóða, verkefni sem lúta að auknu öryggi neðansjávarkapla og efling liðsafla sem sinnir rekstrarverkefnum á öryggissvæðum.

Búist er við að hlutfall heildarframlaga til þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum haldist í 0,35% út gildistíma áætlunarinnar. Framlög til málefnasviðsins hækka í samræmi við spá um vergar þjóðartekjur úr rúmlega 13,3 milljörðum árið 2024 í rúmlega 17,0 milljarða árið 2028. Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands grundvallast á stefnu sem gildir til ársloka og stendur nú yfir vinna mótun nýrrar stefnu fyrir tímabilið 2024–2028, sem ég mun leggja fram á haustþingi. Við framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á að sérþekking Íslands nýtist sem best og að framlagið sé virðisaukandi fyrir viðtakendur.

Hærri framlög til þróunarsamvinnu á tímabilinu verða einnig nýtt til verkefna í þriðja tvíhliða samstarfslandi Íslands, Síerra Leóne, en stefnt er að því að opna sendiskrifstofu í höfuðborginni Freetown í lok þessa árs. Þar eru helstu áherslur okkar eins og í þróunarsamvinnunni almennt á mannréttindi, jafnrétti og sjálfbæra þróun og hækkun á framlögum til þróunarsamvinnu verður nýtt til að hlúa að öflugu samstarfi við áherslustofnanir Íslands í fjölþjóðasamstarfi og styrkja samstarf við tvíhliða samstarfslönd Íslands.

Margar áskoranir steðja að heimsbyggðinni. Ísland leggur sitt lóð á vogarskálarnar til að vinna að bættri veröld með öflugum stuðningi við mannúðarmál. Má þar sérstaklega nefna lífsbjargandi aðstoð og stuðning til að bæta lífsafkomu fólks á flótta, svo sem frá Afganistan, Jemen og Úkraínu. Áfram verður slíkur stuðningur mikilvægur þáttur í okkar starfi á komandi árum.

Eins og ég nefndi er aðhaldskrafan 784 milljónir og hún verður útfærð í fjárlögum hvers árs fyrir sig. Varðandi uppbyggingarsjóð EES þá nemur samdrátturinn tæpum 1,7 milljörðum kr. milli áranna 2023–2024, en það má gera ráð fyrir að þetta komi til endurskoðunar þegar lögð verður fram ný áætlun um framlög aðildarríkjanna til sjóðsins fyrir næsta tímabil.