Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég fagna því að fá tæpar tvær mínútur til að tala um það hvort við getum farið betur með skattfé, hvort við getum hér í okkar litla samfélagi einfaldað regluverk, hvort við getum fundið dæmi þess að við séum að sóa annarra manna peningum í verkefni sem var ákveðið fyrir löngu að væru mikilvæg en eru ekki mikilvæg lengur, hvort við getum frekar straumlínulagað rekstur á þungum og stórum kerfum, hvort við horfum fram á sjálfbæran rekstur á öllum sviðum í íslensku samfélagi. Ég held að gríðarleg tækifæri séu til þess að fara betur með annarra manna fé sem við tökum af fólki til að setja í mikilvæg verkefni en setjum líka í verkefni sem eru ekkert endilega svo mikilvæg, eða verkefni sem okkur finnst kannski mikilvæg en fólkinu sem vann sér inn fyrir þessum peningum finnst ekkert sérstaklega mikilvæg. Við eigum að horfa á þetta með þeim gleraugum að við séum að sinna grundvallaratriðum, sem við höfum skuldbundið okkur til að sinna, og sinna þeim þá líka almennilega, vegna þess að líka eru dæmi þess að við séum að setja peninga í kerfi þar sem við erum að lofa fólki ýmsu sem við getum svo ekki endilega staðið við. Sumt á sér eðlilegar skýringar og margt af því verður viðvarandi verkefni, ekki bara fyrir okkur heldur líka löndin í kringum okkur. En það er ábyrgðarhluti að leita allra leiða til að fara eins vel og kostur er með annarra manna peninga og hafa hugrekki til þess að hætta hlutum sem einu sinni voru mikilvægir en eru það kannski ekki lengur og hafa líka hugrekki til þess að forgangsraða, vegna þess að forgangsröðun og endurröðun er ekki það sama. Mér finnst mikil tilhneiging vera til þess að horfa á allt sem við gerum og öll fjárútlát sem einhvern steyptan grunn sem aldrei má pota í eða brjóta, heldur bara hlaða endalaust nýjum verkefnum ofan á. Það er ekki rétt leið og það er ákveðin kurteisi að skuldbinda sig til þess að fara vel með annarra manna fé og þar getum við sannarlega gert betur, alls staðar í kerfinu.