Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það er búið að fara nokkuð vítt og breitt yfir málaflokk hæstv. ráðherra og líka aðeins um hagræðingu og það hvernig við förum með skattfé. Mig langaði að fara meira inn á slíkar slóðir, þ.e. ytri umgjörðina í þeirri stöðu sem við erum núna í í efnahagsmálunum og nálgast kannski hæstv. ráðherra sem forystukonu í stærsta stjórnmálaflokki landsins og ábyrgðin sem þar liggur núna stendur í stjórnarsáttmálanum. Ég var nú að rifja þetta upp áðan, mér finnst þetta svo góðar setningar, ég ætla að halda þeim til haga:

„Það verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á kjörtímabilinu.“ — Við erum augljóslega ekki þar.

„Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu …“ — Við erum augljóslega heldur ekki þar.

Þessi fjármálaáætlun er öðrum þræði kynnt til þess að vera viðnám gegn verðbólgu og til þess að lækka vexti í framhaldinu. Hins vegar er allt of stutt gengið í því að draga úr ríkisútgjöldum, allt of stutt. Svo er það líka þannig að vextir og verðbólga, og þetta er nú svolítið áhugaverð staðreynd, eru alltaf hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum nema kannski á einhverjum litlum tímabilum og reyndar er það þannig að ef vextir á Íslandi eiga að vera til samræmis við það sem er í Evrópu þá þarf heimsfaraldur að geisa. Það þarf í raun og veru heimsfaraldur til að svo verði og að verðbólgan verði svipuð hér þegar verðbólgan í Evrópu fer upp, hækkar vegna stríðs. Þannig erum við alltaf í eltingaleik við ytri aðstæður í efnahagsmálum hérna á Íslandi og auðvitað er þar krónan stór þáttur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, og þá einmitt sem forystukonu í stærsta flokki landsins: Hvað þarf til að Sjálfstæðisflokkurinn geti uppfyllt það markmið, sem hann margoft hefur lýst yfir, að það sé hægt að draga úr þessum miklu sveiflum sem hér eru (Forseti hringir.) til samræmis við það sem við sjáum í löndunum í kringum okkur? Hvað er hægt að gera til að það verði að veruleika? (Forseti hringir.) Því að ef það gengur ekki þá hljótum við á endanum að dæma það þannig, sem er að sjálfsögðu öllum orðin ljós sem ágætisstaðreynd í mínum flokki, (Forseti hringir.) að það er eitthvað mikið að í hagstjórninni og krónan er þar stórt atriði.