Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil nú reyndar meina það, og það er ekki bara mín skoðun eða míns flokks, að ábyrgðin á því hvernig komið er fyrir þróun ríkisútgjalda liggi ekki neins staðar annars staðar en hjá þessari ríkisstjórn. Nú ætla ég svo sem ekkert að vera hérna að benda fingri á einn flokk fremur en annan en maður hefði þó a.m.k. haldið að flokkur sem skilgreinir sig hægra megin við miðju væri tilbúinn til þess, þegar svona árar í efnahagslífinu, að ganga svolítið langt þó að það sé sársaukafullt, einfaldlega vegna þess að til lengri tíma þá skilar það fólkinu og fyrirtækjunum í landinu betri útkomu. Sveiflurnar sem við erum að upplifa hér eru alltaf meiri og ýktari heldur en í nágrannalöndunum. Við erum mjög auðlindadrifið samfélag og það hverfur ekkert þótt við tökum upp aðra mynt eða annan gjaldmiðil. Við getum enn þá haft áhrif á þá þætti en sveiflurnar sem við erum alltaf að taka við að utan eru hins vegar verri og þar kemur auðvitað sjálfur gjaldmiðillinn inn. Auðvitað er það lenska hjá Sjálfstæðisflokknum núna í seinni tíð að tala um að það sé nú þannig að vinnumarkaðurinn beri alltaf mestu ábyrgðina. Ábyrgðarflóttinn er orðinn þannig að það er ekki bara Seðlabankinn, nú er það vinnumarkaðurinn, jafnvel vinnumarkaðslíkanið, það hvernig við semjum um kjör á markaði. En gæti verið að við séum einmitt í þeirri stöðu að vinnumarkaðurinn semji eins og hann gerir vegna þess að það er viðbragð við óheilbrigðu ástandi, viðbragð við ýktum sveiflum, sveiflum sem þekkjast ekki í löndunum í kringum okkur í viðlíka mæli?

Og varðandi niðurskurðinn, svo við komum aðeins aftur að því, þá má benda á að það eru ekki bara einhverjir í stjórnarandstöðunni sem eru að benda á þetta. Þetta eru Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, fjármálaráð, ASÍ. (Forseti hringir.) Seðlabankastjóri hefur talað í þessa veru. Það eru eiginlega bara fulltrúar í ríkisstjórninni sem tala um að það sé verið að gera nóg.