Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:35]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það er nú alveg áskorun að fara í gegnum þessa málaflokka hér á fimm mínútum. Ég ætla samt að gera heiðarlega tilraun til þess en vonast til þess að hv. þingmenn muni nota tækifærið og spyrja og koma með athugasemdir þannig að við getum tekið umræðu um þetta. Það sem ég hefði viljað fara í gegnum eru orkuskipti, Loftslagsráð, aðgerðaáætlun, loftslagsvísar atvinnulífsins, styrkjaumhverfið, aðlögun að loftslagsbreytingum, hitaveiturnar, náttúruvá, ofanflóðamál, náttúru- og minjavernd, hringrásarhagkerfi og heilnæmt umhverfi, loftgæði, fráveitumál og stofnanaskipulag. Ég mun gera heiðarlega tilraun til að klára það á þessum stutta tíma.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur verið mikil áhersla á orkuskiptin til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum og í það heila hefur það gengið ágætlega. Þó ber að hafa í huga þegar við tölum iðulega um að við höfum náð hvað mestum árangri, og þá helst á eftir Norðmönnum þegar kemur að rafvæðingunni, kannski Svíum líka, við erum á svipuðum stað og þeir, að þá erum við að tala um smærri bíla. Við eigum eftir, og stöndum ekki vel í þeim miðað þær upplýsingar sem ég hef, stærri bílana og það er nokkuð sem við erum að taka á núna. Einnig eru mörg orkuskipti á byrjunarreit eins og t.d. á siglingum og flugi, þannig að þarna er um mjög stór verkefni að ræða. Við höfum að langstærstum hluta nýtt þetta í gegnum ívilnanir fram til þessa en erum núna að fara yfir í það að Orkusjóður muni vera með styrkina nær alfarið og hófst þetta verkefni með þeim hætti að 400 millj. kr. eru til að styrkja það að kaupa þungaflutningabifreiðar. Þá er það til að borga mismuninn á milli verðs og 1 milljarður er til styrktar kaupum á bílaleigubílum. Að vísu voru settir 1,5 milljarðar í að styrkja bílaleigurnar árið þar á undan en það var þá ekki síður jarðefnaeldsneyti þannig að nú er verið að færa það alveg yfir í græna styrki sem er líka mikilvægt til þess að eftirmarkaðurinn með bíla verði líka grænn, ef þannig má að orði komast.

Síðan í loftslagsmálum vek ég athygli á því að það falla niður 800 millj. kr. vegna Kyoto. Af hverju geri ég það? Það er í sjálfu sér gleðiefni að við séum að gera það upp en við skulum hafa það í huga að vegna þess að við náðum ekki því sem við skuldbundum okkur til þá borgum við það sem ég hef kallað blóðpeninga, 800 millj. kr., í Kyoto-uppgjörinu en ef við náum ekki þeim markmiðum sem eru núna þá þurfum ekki að kaupa loftslagsheimildir einu sinni heldur á hverju ári og það verða mun hærri upphæðir en þetta. Ef það gengur vel þá getum við hins vegar notað þetta til tekjuöflunar.

Við erum að endurvinna aðgerðaáætlunina og við gerum það með bestum hætti með því að vinna m.a. með atvinnulífinu, sem er einn þátturinn í því. Við getum sagt að það sé samtal um ábyrgð þannig að þar séu sett mælanleg markmið sem hægt er að ná vegna þess að til að ná sem bestum árangri þá þurfa aðilar að vinna saman. Það er mjög ánægjulegt að atvinnulífið taki svona vel í það að taka ábyrgð á því að ná loftslagsmarkmiðunum með okkur.

Þegar er talað um styrkjaumhverfi þá er mikilvægt að sameina Orkusjóð og Loftslagssjóð. Við erum með áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum. Við sjáum fram á landsáætlun um aðlögun þar og það er mikilvægt að fjármögnun, vöktun og viðbrögð vegna náttúruvár og landsáætlun um aðlögun haldist í hendur.

Hitaveitur eru alveg stórmál og við munum ræða það betur í þinginu. Ekki í þessari viku heldur næstu kemur sérstök skýrsla um stöðuna á hitaveitunum. Þar er verk að vinna og við höfum ekki sinnt þeim málum svo heitið geti síðustu 20 árin.

Virðulegi forseti. Ég á eftir stór mál eins og náttúruvá og ofanflóðamálin sem eru gríðarlega stór og mikilvægt að við ræðum betur hér. Það er nýkomin út skýrsla um náttúruvána sem segir okkur að þar þurfum við að gera miklu betur. Auðvitað hefur mest áhersla verið á ofanflóðavarnir en við þurfum sömuleiðis að vera vakandi þegar kemur að mælingu og vöktun. Ég kemst ekki lengra í náttúru- og minjavernd, hringrásarhagkerfi og loftgæðum og fráveitumálum og stofnanaskipulagi en vonandi næ ég því, virðulegi forseti, núna þegar við förum síðan að ræða þetta í kjölfar þessa innleggs hér.