Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:47]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi loftslagsvísana og þessa sameiginlegu ábyrgð með atvinnulífinu þá verður grænþing núna í byrjun júní þar sem verður kynnt sú vinna sem er búin að vera í gangi, sem hefur verið mjög mikil. Mér finnst mjög gott að hvort sem það eru bændur eða stóriðja þá eru menn með mikinn metnað á þessu sviði, enda er til mikils að vinna. Það mun auka verðmæti vara og það mun auka verðmæti þjónustu þegar við náum árangri í loftslagsmálum. Við þekkjum það af reynslunni og sögunni að við höfum ekki tapað á því að fara í orkuskipti eitt og tvö. Ég er enn þá að leita að einhverjum einstaklingi sem finnst orkuskipti eitt og tvö hafa verið mistök, þ.e. vatnsaflsvæðingin og jarðvarmavæðingin. Ég hef ekki hitt neinn enn þá en kannski kemur einhver, ég veit það ekki.

Hins vegar er stóriðjan, millilandaflugið og landgræðslan og skógræktin í öðru kerfi en svo að þau séu á beinni ábyrgð Íslands og fyrirtækin þar taka bara þátt í því umhverfi. Ég ætla ekki að segja að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, ég er alls ekki að segja það, en við hljótum hins vegar að vera mjög upptekin af því sem snýr að beinni ábyrgð Íslands, sem eru samgöngurnar, sem er landbúnaður fyrir utan skógrækt og landgræðslu, sem eru úrvinnslumál, þar sem við getum gert rosalega mikið vegna þess að við erum enn þá með 90% línulegt hagkerfi. Við þurfum að gera miklu betur í hringrásarmálunum og við erum að vinna að því og gerum það með sveitarfélögunum og öðrum aðilum.

Samgöngurnar skipta sömuleiðis miklu máli. Almenningssamgöngur eru núna að langstærstum hluta, ég man ekki hvert hlutfallið er, greiddar niður af opinberu fé þannig að við setjum mikið í almenningssamgöngurnar. En auðvitað þurfa menn að gera miklu betur þar og ég verð að viðurkenna að það er mín skoðun að menn þurfi aðeins að hugsa almenningssamgöngur út frá þeim sem eiga að nota þær. Mér finnst vanta upp á það. Ég bý nú í úthverfi og nota almenningssamgöngur og þær henta alveg þokkalega fyrir einstakling eins og mig (Forseti hringir.) sem þarf ekki lengur að bera ábyrgð á börnum en fyrir barnafjölskyldur (Forseti hringir.) og þá sem þurfa að sækja leikskóla og skóla eitthvað út úr hverfi getur þetta verið mjög snúið.