Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:51]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar innlegg og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir er hér að ræða hluti sem eru gríðarlega mikilvægir en ég gat ekki nema rétt aðeins hlaupið á í framsögunni. Við búum á Íslandi og því fylgja gríðarlega margir kostir. En Ísland er Ísland og við vitum að það sem hefur gerst í fortíðinni getur gerst aftur og í ofanálag þá erum við að tala um breytta stöðu bara út af breyttu loftslagi. Það er þess vegna sem ég hef lagt þessa miklu áherslu á umræðuna um náttúruvá og þess vegna kom ég með þessa skýrslu til að vinna eftir og koma með stefnu um náttúruvá og þar er verk að vinna. Hv. þingmaður ræðir hér mjög mikilvægan þátt sem eru ofanflóðavarnir sem hafa sannað gildi sitt en það er mikið eftir. Árið 2023 í janúar hafði 34,6 milljörðum kr. að núvirði verið varið til ofanflóðavarna frá árinu 1996. En við eigum eftir að setja, miðað við þær áætlanir sem eru í gildi núna, 33,8 milljarða í þetta. Við höfum styrkt verkefni á 14 þéttbýlissvæðum en við eigum átta eftir miðað við þær áætlanir sem eru núna, en síðan þurfum við ávallt að vera að meta þetta því að aðstæður breytast og við erum að sjá, eins og ég nefndi, ógnir sem við höfum ekki séð áður. Ég legg áherslu á að þingmenn og þingið ræði þessi mál sérstaklega vegna þess að það er mjög æskilegt að við getum flýtt þessu þó að við klárum ekki 34 milljarða verkefni á einu ári þó að maður vildi gjarnan gera það. En þetta eru þannig mál að við verðum alltaf að hafa þau í forgangi.