Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:55]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér í seinni ræðu sinni inn á annað mjög stórt og mikilvægt mál og alveg eins og hugur okkur var hjá bæði fólkinu í Neskaupstað og á Patreksfirði þegar það lenti í flóðum þá er hugur okkar sérstaklega og ekki síður hjá bændum og íbúum á því svæði sem núna er að lenda í riðunni. Þetta er algjört forgangsmál en við höfum ekki gert mikið í þessu nokkuð lengi. Það liggur alveg fyrir að þetta er á höndum sveitarfélaganna en það vantar innviði, við þekkjum það. Núna þegar þessi staða kemur upp þá sýnist mér samt sem áður, þegar við tölum um þetta núna vegna þess að ég hef fylgst með þessu í gegnum mínar stofnanir og mitt ráðuneyti, að það sé að nást lausn í þessu erfiða máli. En þetta segir okkur að þarna þurfum við að gera gangskör í því og ganga þannig fram að aðstæður og innviðir séu eins og við viljum hafa þá. Ég hef sagt við sveitarfélögin, þótt þetta sé á þeirra ábyrgð, að við erum algerlega tilbúin að vinna með þeim til að finna einhverjar lausnir. Það liggja fyrir margar skýrslur og tillögur en það vantar að fara í framkvæmdina því að staðan í dag sýnir að þetta gengur ekki upp svona. En þrátt fyrir að þetta sé ekki á okkar stjórnsýslustigi þá breytir það því ekki að allir svona hlutir eru vandamál allrar þjóðarinnar og við gerum að sjálfsögðu allt sem við getum til að aðstoða, til að ná góðri niðurstöðu því að við getum ekki haft þetta svona.