Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:58]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur og sitja og standa fyrir svörum eftir atvikum. 31 milljarður er eyrnamerktur málaflokknum í ár og þetta er með víðtækari málaflokkum sem heyra undir einn ráðherra og eitt ráðuneyti. Ég fagna því að þetta hafi verið sett jafn ofarlega á dagskrá ríkisstjórnar og raun ber vitni. Þetta er dálítið eins og uppvaskið, þetta er eilífðarmál. Þessu lýkur aldrei. Það eru alltaf nýjar áskoranir, nýtt ryk í hornum og það þarf að ryksuga hér og ryksuga þar og huga að loftgæðum og öllu þessu. Loftgæðin — það er hægt að halda því fram með sæmilegum rökum að Ísland sé kannski vistvænasta land í heimi. Við hitum húsin okkar með jarðvarma og knýjum rafmagnið með fossunum. Við erum komin, að mér skilst, næstlengst í heimi í því að fremja orkuskipti í bílaflotanum ef bílaleiguflotinn er frá skilinn. Það er margt gott um þetta að segja og verkefni hæstv. ráðherra er dálítið bara eins og að vera yfir Disneylandi, það þarf að viðhalda og það þarf að huga að því að gestirnir sem eru að flykkjast hingað, margar milljónir á ári, séu sæmilega ánægðir og beri okkur vel söguna.

Það er fyrri alda dilemma sem getur víða að líta á Íslandi og það er draslaragangur. Það eru gamlar múgavélar fastar við hringveginn hér og þar og gamlir traktorar og eitt og annað. Þó að það sé ekki beint aðalmál, efst á baugi, er ráðherrann ekki sammála því að við þyrftum að taka aðeins til og útrýma draslaraganginum við hringveginn til að orðsporsáhættan sé ekki í húfi hvað það varðar?

Og svo er ýmislegt fleira í seinni lotu sem mig langar til að spyrja um tengt þessu máli.