Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mér heyrist hæstv. ráðherra hafa misst af spurningunni vegna þess að svarið fékk ég ekki. Spurningin var: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná því markmiði að draga úr losun á beinni ábyrgð stjórnvalda um 500.000 tonn CO2-ígilda á næsta ári? Það gerist ekki með rafeldsneyti. Það gerist ekki með einhverjum aðgerðum sem er mögulega hægt að hrinda í framkvæmd eftir fimm ár. Það gerist með því sem er gert hér og nú í dag. Aðgerðir sem standa að baki þessu markmiði í fjármálaáætlun, sem er til umræðu í dag en ekki í einhverri framtíð, þurfa að standa undir samdrætti upp á 508,5 þús. tonn CO2. Til samanburðar þá þyrfti að hætta allri losun frá úrgangi, af því að hæstv. ráðherra talaði um hringrásarhagkerfið. Það myndi ekki hrökkva fyrir nema kannski tveimur þriðju af þessu markmiði næsta árs hjá ríkisstjórninni. Næsta árs. Í fjárlögum síðasta árs var milljarður lagður til bílaleigna til að rafvæða hluta flotans, til að kaupa rafmagnsbíla í stað bensínbíla. Sú aðgerð var metin upp á að draga úr losun upp á 3,5 kílótonn. Hvar eru hin 505 kílótonnin sem ráðherrann ætlar að draga úr losun um á næsta ári? Hvar eru þær aðgerðir en ekki einhverjar aðgerðaáætlanir sem koma kannski einhvern tímann seinna?