Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg og bara endurtek það sem hefur komið fram og hv. þingmaður þekkir mjög vel, hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur verið að vinna þessi mál, sem hefur verið ágætisstuðningur við í þinginu. Ég veit ekki hvort ég á að endurtaka það eitthvað frekar. Það liggur alveg fyrir að við erum að vinna vinnu sem hefur ekki verið unnin áður og það hefur réttilega verið bent á að nákvæmnin sé ekki jafn mikil og við viljum hafa hana. Við erum svo sem ekkert eyland í því þó að við séum eyja því að þegar maður ber þetta saman við kollegana er þetta nákvæmlega það sama sem aðrir eiga við. Það sem við höfum gert til að ná árangri er m.a. að læra af þeim aðilum sem standa okkur næst og þá er ég sérstaklega að vísa í Norðurlandaþjóðirnar, ég er að vísa í loftslagsvegvísana og sameiginlegu ábyrgðina með atvinnulífinu og öðrum aðilum. Sömuleiðis, eins og ég vísaði hér í, virðulegi forseti, þegar kemur að beinni ábyrgð Íslands, eru mikil tækifæri í því að vinna betur í hringrásarhagkerfinu til að minnka losun. Við erum að vinna með bændum þegar kemur að landbúnaðinum. Við erum svo sannarlega að skoða það þegar kemur að efnanotkuninni og síðan erum við að reyna að hafa í loftslagsbókhaldinu, sem ég fullyrði að verður betra, bæði í framsetningu og vinnu þó að það séu mörg álitaefni í því, sem bestar mælingar þannig að það sem við erum að gera, hvort sem það er á kostnað skattgreiðenda eða á hendi fyrirtækja að gera, skili sem mestu þannig að við náum losuninni niður. Ég veit ekki af hverju við ættum að vera að karpa um þetta, virðulegi forseti, þetta er uppleggið sem við erum með og þetta er vegferðin sem við erum á og ég vona að hv. þingmaður styðji okkur í henni.