Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:29]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mér er ljúft og skylt að svara því. Ég hef alltaf í mínum stjórnmálum lagt á það áherslu að fara vel með opinbert fé. Ég náði sem heilbrigðisráðherra miklum árangri þar í að nýta fjármunina betur, stytta biðlista og fjölga aðgerðum, svo einhver dæmi séu tekin. Sem utanríkisráðherra fór ég í mikla stefnumótun um hvernig væri hægt að nýta fjármunina betur í rekstrinum og við lokuðum sendiráði í góðæri, sem ég veit ekki til að hafi gerst áður, fjölguðum staðarráðnum starfsmönnum og gerðum mjög margt í þá veruna. Eitt það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í þetta ráðuneyti var í fyrsta lagi að endurskipuleggja stjórnkerfi ráðuneytisins með það að markmiði að nýta mannauðinn sem allra best og einfalda það fyrirkomulag og sömuleiðis er ég núna í miðju kafi við að taka tíu stofnanir og sameina þær í þrjár og ég vona að ég fái góðan stuðning frá hv. þingmanni og þingheimi við að klára það verkefni vegna þess að það þarf að klára það með frumvörpum næsta vetur. Ég get auðvitað haldið áfram, virðulegi forseti, það er af nógu að taka. Þetta er eitt af því sem enginn þurfti að biðja mig um, enginn seðlabanki eða nokkur, því að þetta er bara nokkuð sem ég hef alltaf gert í mínum stjórnmálum, bæði á sveitarstjórnarstiginu og í landsmálunum.

Síðan vil ég aðeins koma inn á það, virðulegur forseti, af því að hv. þingmaður vísaði hér í markmiðin og sagði að þar væri ekkert að breytast dramatískt, að ég skal bara gangast við því að hlutir ganga þannig fram þegar þú ætlar að fá mjög marga til liðs að þú nærð ekki niðurstöðu eins og hendi sé veifað. Ef þú ætlar að vinna með aðilum innan samfélagsins til að ná settum markmiðum, atvinnulífið er gott dæmi, þá tekur það bara ákveðinn tíma. Ég get hins vegar glatt hv. þingmann með því að í byrjun júní verður grænþing og með niðurstöðunni sem þar fæst, í einum af mikilvægustu þáttunum sem lýtur að því þegar við ætlum að ná árangri sérstaklega hvað varðar beina ábyrgð Íslendinga en annað líka, munum við og hv. þingmaður (Forseti hringir.) og aðrir sjá framan í nákvæmari markmiðasetningu og nákvæmara niðurbrot til að ná niður markmiðum okkar.