Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er í raun ráðgáta hvernig þessari ríkisstjórn hefur tekist að auka ríkisútgjöld jafn mikið og raun ber vitni og slá öll fyrri met í því efni, sérstaklega í ljósi þess að menn verða ekkert sérstaklega varir við áhrifin af þessari gríðarlegu útgjaldaaukningu. Einna flóknast af öllu er þó að átta sig á loftslagsbókhaldinu; hvað er sett í hvað, í hvað peningarnir fara og ég tala nú ekki um hvað menn fá fyrir, sem virðist vera mjög á huldu. Hvað fá menn fyrir þessa gríðarlegu peninga sem settir eru í loftslagsmál? Oft og tíðum virðist það vera markmið í sjálfu sér að kostnaðurinn sé sem mestur í málaflokknum og í því felist árangur án þess að menn átti sig á því hverju þetta skilar í raun. Oft og tíðum reyndar í þessu undarlega loftslagsbókhaldi, og nú er ég ekki bara að tala um ríkisstjórn Íslands, þá virðist það fela í sér stuðning við það að gera framleiðslu óhagkvæmari og stuðning við það að flytja verðmætasköpun til annarra landa.

En eitt vakti athygli mína sérstaklega í fjármálaáætluninni hvað varðar loftslagsmálin og það er tafla á bls. 85, ef hæstv. ráðherra er með bókina hjá sér, sem sýnir eða á að sýna umfang aðgerða í loftslagsmálum. Þar kemur á daginn að að mestu leyti hafa svokölluð framlög ríkisstjórnarinnar til loftslagsmála falið í sér að skattar hafa ekki verið eins háir og þeir gátu verið. Þetta er ákveðin kenning sem maður hefur heyrt áður, m.a. úr fjármálaráðuneytinu, að það að skattleggja fólk ekki eins mikið og hægt væri feli í sér styrk, feli í sér gjöf til fólks, í rauninni eins og ríkið (Forseti hringir.) eigi alla peningana sem fólk og fyrirtæki vinna sér inn fyrir og ef skattar (Forseti hringir.) eru lægri en ella þá sé það styrkur, gjöf.

Ég næ ekki að spyrja spurningarinnar, herra forseti, en hæstv. ráðherra getur kannski velt vöngum um þessar þversagnir.