Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra heldur sig við þetta haldreipi sitt sem hefur hugsanlega lostið niður í huga hans í heitum potti í Borgarnesi einhvern tímann. En eins og margoft hefur komið fram hérna áður er enginn andsnúinn eða gagnrýninn á það sem hæstv. ráðherra kallar nú orkuskipti eitt og tvö. En hvað var það? Það voru stórkostlega hagkvæm verkefni fyrir samfélagið allt, framfaraverkefni, hvort sem það varðaði umhverfið eða lífskjör fólks. Það sem ég hef áhyggjur af er að í lausnir, ef lausnir skyldi kalla sem nú er boðið upp á, í því sem verða þá væntanlega þriðju orkuskiptin miðað við þessa talningu hæstv. ráðherra, vanti hagkvæmnina og þar vanti meira að segja upp á það að þau skili raunverulegum umhverfisáhrifum til góðs. Til að mynda ef menn ætla að fara að setja hér vindmyllur um allar koppagrundir sem er mjög á reiki hvort, þegar allt er talið, dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda eða jafnvel auki þær, enda vindmyllurnar auðvitað gríðarlega stórar og byggðar úr stáli frá Kína og með óhemjustórum sökklum og óendurnýjanlegum spöðum o.s.frv.

En þetta er stórt verkefni sem hæstv. ráðherra er að fást við og ég vil ekki draga úr honum kjark, frekar hvetja hann til dáða, enda eykur Kína, þangað sem framleiðslan er að flytjast núna, losun sína á kannski þremur dögum um það sem nemur allri losun Íslands á ári. Bara aukningin á fáeinum dögum í Kína, bara aukningin á þessum dögum er álíka mikil og árslosun Íslands. Þannig þetta er stórt verkefni ef hæstv. ráðherra ætlar að bjarga heiminum með þessu en þeim mun mikilvægara þá að ráðist sé í (Forseti hringir.) hagkvæmar aðgerðir sem virka. Þess vegna saknar maður þess að sjá aldrei mælikvarða á árangurinn, (Forseti hringir.) bara að menn státi sig af auknum útgjöldum.