Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:44]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Varðandi árangurinn og það að við sýnum hann aldrei, eins og ég var að fara yfir með hv. þingmanni þá er það eitt af því sem við erum að þróa, m.a. með atvinnulífinu, að fá eins góð mælanleg markmið og getur orðið. Það er það sem við leggjum upp með. En af því að hv. þingmaður talar um að orkuskipti eitt og tvö, sérstaklega tvö, hitaveituvæðingin, hafi verið hagkvæm þá var hún rosalega dýr og var baggi á mörgum sveitarfélögum. Ég þekki það alveg með Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, (Gripið fram í.) gríðarlega dýr. Ég var í Menntaskólanum á Akureyri og vann í mínum fyrstu kosningum árið1986, í bæjarstjórnarkosningum, og hitaveitan þar var mikill baggi. Þetta voru miklu stærri aðgerðir heldur en við erum að fara í núna, miklu stærri, og því miður, og það eru margar ástæður fyrir því, þá var þetta dýrt meðan á þessu stóð. Þetta var gríðarlega góð langtímafjárfesting en hafði svo sannarlega ekki góð áhrif á lífskjör í þeim sveitarfélögum sem báru þessa bagga á þeim tíma.

Vindmyllurnar — Danir eru búnir að vera í vindmyllum síðan 1970. Norðmenn, Skotar og Nýsjálendingar eru búnir að gera þetta síðan 1990. Það er komin pínu reynsla á þetta og við getum skoðað hana. Reyndar hafa vindmyllur verið notaðar frá örófi alda, það hefur alla vega verið gert ansi lengi að nýta vindinn. Af því að hv. þingmaður vísar í Kína þá er ég ekki með Kína á mínu borði. Ég get hins vegar haldið margar langar ræður um Kína og ef það væri aðeins í loftslagsmálum sem kínversk stjórnvöld væru að gera eitthvað af sér þá væri heimurinn betri en hann er í dag.