Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:54]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það ber að nefna að nú á haustdögum verður kynnt fjölmiðlastefna til ársins 2030 og þær grunnstoðir sem verða í henni eru það stuðningskerfi sem við höfum fyrir frjálsa fjölmiðla í dag, þar verður aukinn fyrirsjáanleika í fyrsta lagi. Í öðru lagi, eins og hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir, er aukning til frjálsra fjölmiðla um tæpa 2 milljarða á tímabilinu. Þar ætlum við að hvetja til frekari áskrifta og ég tel að sú hvatning og þessi raunverulegi styrkur hvað það varðar muni verða mjög jákvætt fyrir frjálsa fjölmiðla. Í þriðja lagi erum við að setja á laggirnar starfshóp sem á að ná utan um erlendu streymisveiturnar, en eins og hv. þingmanni hlýtur að vera kunnugt um þá er það ekki aðeins Ísland sem er að fást við þessar alþjóðlegu streymisveitur, það eru öll ríki í Evrópu þessa dagana. En það er sjálfsagt að ná betur utan um það og þess vegna erum við að setja á laggirnar þann starfshóp. Og í fjórða lagi ber að nefna að í bígerð er að minnka umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en þó með þeim hætti að við munum líta á auglýsingadeildina sjálfa. Þetta erum við að vinna núna með Ríkisútvarpinu í góðu samstarfi og ég vænti þess að þau skref sem við erum að fara að taka núna verði mjög jákvæð fyrir íslenska fjölmiðla.