Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:07]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er svo að hlutverk fjölmiðla, þar sem eru öflugar ritstjórnir, hefur líklega aldrei verið mikilvægara einmitt vegna þess að það er ofboðslega mikið upplýsingamagn og við verðum að geta treyst því að það efni sem er sett fram sé áreiðanlegt og að þetta séu réttar upplýsingar. Við höfum orðið vitni að því, til að mynda hjá þessum stóru miðlum þar sem auðvelt er að setja inn efni sem er ekki ritrýnt og það eru ekki ritstjórnir yfir því — við erum auðvitað að kynnast þessu mjög vel um þessar mundir og sjáum að ef það eru ekki öflugir fjölmiðlar sem geta hamlað upplýsingaóreiðu, falsfréttum og öðru slíku þá bitnar það á lýðræðinu sjálfu. Ég fagna þeirri umræðu sem er að eiga sér stað hér og ég skil vel að bæði fjölmiðlar og þingmenn spyrji spurninga: Hvar höfum við verið, hvar erum við og hvert erum við að fara? Ég tel hins vegar að mikilvægi fjölmiðla sé það brýnt í samtímanum að ég mun leggja mig fram við að reyna að ná pólitískri samstöðu um þessa ráðgjöf sem við erum að fara í. Ég verð að segja að mér finnst eins og umræðan sé búin að breytast býsna hratt á síðustu sex til níu mánuðum og ég tel að sú heimsókn sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd fór í á Norðurlöndin hafi verið mjög gagnleg því að ég held að margir þingmenn hafi áttað sig á því að eina leiðin til að styðja við þessa lýðræðislegu umræðu og efla fjölmiðla er með heildstæðum aðgerðum. Það er alveg ljóst að eitt stuðningskerfi dugar ekki og því hefur hæstv. ráðherra alltaf áttað sig á.