Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:10]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Árið 2019 var smánarlega lágur bankaskattur upp á 0,376% lækkaður í 0,145%. Með öllum þessum aukastöfum er ekki víst að allir átti sig á að bankaskatturinn var minna en 0,4% og er núna minna en 0,15%. Í greinargerð með frumvarpinu um lækkun bankaskatts stóð, með leyfi forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. lögð áhersla á að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda.“

Ég ætla ekki að tjá mig um skilvirkni í fjármálakerfinu en hitt er ljóst að kostnaður til neytenda hefur ekki lækkað heldur þvert á móti hækkað gríðarlega þrátt fyrir að bankaskatturinn hafi verið lækkaður.

Á minnisblaði sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá fjármálaráðuneytinu var svar við spurningu þar sem ég bað um að reiknað væri út hversu miklar tekjur ríkissjóður myndi fá ef bankaskattur yrði aftur hækkaður úr 0,145% í 0,376%, sem er það sem hann var fyrir breytinguna á þarsíðasta ári. Í svarinu kom fram að væri skattprósentan 0,145% mætti gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálastofnanir eða af bankaskatti myndu nema 5,9 milljörðum kr. en væri skattprósentan hækkuð úr 0,145% í 0,376% mætti gera ráð fyrir að tekjur af skattinum árið 2023, að öllu öðru óbreyttu, myndu nema 15,3 milljörðum kr. Við erum að fá 5,9 milljarða en gætum fengið 15,3 milljarða. Hagnaður bankanna er hreinlega stjarnfræðilegur, enda er verið að velta til þeirra fjármunum heimilanna á stórvirku færibandi og lítur ekki út fyrir að sjái fyrir endann á því.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að hækka bankaskattinn í það sem hann var fyrir breytinguna 2019. Og ef svo var, af hverju var það ekki gert? Munar ríkissjóð ekki um 9,4 milljarða?