Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:41]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr út í vaxtakjör og hvernig við getum mögulega lækkað þá vaxtabyrði sem ríkissjóður Íslands þarf að bera. Fyrst er að nefna að ég tel afar brýnt að við höldum áfram að greiða niður skuldir. Við erum með lágt skuldahlutfall og mun lægra en við gerðum ráð fyrir þegar við vorum að undirbúa ríkisfjármálaáætlun á síðasta ári af því að þær aðgerðir sem var ráðist í vegna Covid voru mjög umfangsmiklar. Við þurfum að halda áfram að vinna að því að greiða niður vexti. Við þurfum að vera með sjálfbæran viðskiptajöfnuð og tryggja að allar útflutningsgreinar okkar dafni og blómstri til að safna gjaldeyri og huga að gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Við höfum verið að horfa upp á það, og það verður bara að segjast alveg eins og er, að við erum að komast í jöfnuð á frumjöfnuði, þ.e. afgang á frumjöfnuði, en ég vil sjá heildarafgang sem fyrst. Í ríkjum þar sem svona mikill hagvöxtur ríkir, eins og við sjáum og hefur verið að koma inn í gegnum tekjuauka, þá á að vera afgangur. Við erum auðvitað að stefna að því og það kann að vera að það þurfi að gera það fyrr. Þá þarf ríkisstjórnin mögulega að endurskoða það en það er auðvitað frumforsenda þess að vaxtakjör lækki. Ég tel svo að það þurfi m.a. að fara í átak í að kynna betur stöðuna á erlendum mörkuðum. Það hefur verið gert og stundum með góðum árangri. Við þurfum að vinna að því að hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands, ég tel að við eigum talsvert inni þar.

Virðulegi forseti. Það má heldur ekki gleyma því að stýrivextir á Íslandi eru hærri en í samanburðarlöndum, og þar getum við borið saman við bæði Bandaríkin og Evrópu, en að sama skapi er hagvöxtur mjög mikill á Íslandi.