Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég ætla að spyrja þriggja ólíkra spurninga eftir því sem tími vinnst til. Þótt töluvert hafi verið rætt um fjölmiðla fram að þessu, í spurningum til hæstv. ráðherra, finnst mér aðeins vanta upp á skýrleika í svörum. Þegar þetta styrkjafyrirkomulag var tekið upp, sem enn er við lýði með einhverjum smávægilegum breytingum, þá var tilkynnt að það væri til bráðabirgða og meira að segja þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Óli Björn Kárason, sagðist vera tilbúinn til þess að styðja málið, þótt honum væri það þvert um geð, með því skilyrði að þetta væri einskiptisaðgerð, þetta væri til bráðabirgða. En er sem sagt niðurstaðan sú að þetta veltist bara svona áfram, að það verði ekki endurskoðað með hvaða hætti er best komið til móts við einkarekna fjölmiðla og það þrátt fyrir þær vendingar sem hafa verið á fjölmiðlamarkaði og þær yfirlýsingar sem menn sem reka hina ýmsu fjölmiðla hafa gefið á undanförnum dögum og vikum um að ekki sé hægt að líta fram hjá áhrifum ofurstöðu Ríkisútvarpsins á þessum markaði? Annað leysir þetta ekki nema litið sé til áhrifa Ríkisútvarpsins líka og nú voru nýjustu fréttirnar í dag eða í gær þær að Ríkisútvarpið hefði sogað til sín allt fjármagn úr Kvikmyndasjóði. Stendur sem sagt hvorki til að endurskoða með hvaða hætti er staðið við bakið á einkareknum fjölmiðlum né að taka á nokkurn hátt á stöðu Ríkisútvarpsins?

Nú er tíminn búinn, frú forseti, í þetta fyrra skipti. Ég kem með fleiri spurningar á eftir.