Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

óviðunandi íbúðarhúsnæði.

[15:08]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka undir það að græðgisvæðing sé ríki eða sveitarfélögum að kenna, ég held að hún sé miklu stærra samfélagslegt vandamál heldur en svo. Við eigum hins vegar að gera allt sem við getum til að ýta undir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sveitarfélögum ber skylda til að skjóta skjólshúsi yfir íbúa sína, ríkið hefur ákveðin tæki til þess og við erum að vinna slíka vinnu. Ég vænti stuðnings frá hv. þingmanni og þinginu öllu til að klára það þegar húsnæðisstefna birtist hér í þinginu. Það mun taka tíma að byggja nægilegt húsnæði. Gríðarleg ásókn er í að búa á Íslandi og hér fjölgar mjög hratt, fyrir utan að við erum líka að leysa úr fortíðarvanda. Ég get verið sammála hv. þingmanni í því að það væri gott ef við gætum unnið enn hraðar, en á þessu sviði er verið að vinna mjög góða vinnu og ég vænti þess að við munum sjá lagafrumvörp á næsta þingi sem munu taka á þessu. Þá er lagaumgjörðin komin, en það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að óvandað fólk misnoti (Forseti hringir.) eymd og fátækt fólks til að bjóða því þessar aðstæður sem við sáum því miður í gær. Taka þarf á því og það er samfélagslegt vandamál.