Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

aðgengi að lyfjum.

[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa spurningu. Þessi umfjöllun hófst þegar jákvæðar fréttir bárust frá Noregi um aukið aðgengi að lyfjameðferð með þessu umrædda lyfi, Spinraza. Talandi um gagnsemi og nytsemi og öryggi, og svo er þetta auðvitað alltaf sett í samhengi við kostnað, þá er það lyfjanefnd sem hefur það hlutverk með lögum að meta það, svo að ég svari því strax. Spinraza er gefið í sprautuformi í mænugöng. Það er það lyf sem var til umfjöllunar í Noregi. Nú er það þannig að Norðurlöndin hafa fylgst að í þessu, hafa öll verið með þetta undir 18 ára, Danir reyndar með lægri aldur. Þetta eru auðvitað bara mjög jákvæðar fréttir sem berast. Ég hef ekki undir höndum gögnin eða fengið gögnin sem þessi nefnd í Noregi hefur, sem er kölluð Beslutningsforum, hún hefur þá endurmetið stöðuna mögulega út frá nýjum vörðum frá einhverju lyfjafyrirtæki, ég veit það ekki fyrir víst. Ég hef látið kalla eftir upplýsingum og hef aðeins lesið í gegnum fjölmiðlana og viðtöl við þá sem eru í þessari nefnd. Mér finnst þetta jákvæðar fréttir. Norðurlöndin hafa fylgst að. Það er klárt mál að lyfjanefnd mun yfirfara þetta og endurmeta í þessu samhengi, það finnst mér blasa við, eins og við höfum bundið um það í lögum. Ég vil líka benda á það í þessu samhengi, þegar við spyrjum hvort það sé pólitísk spurning vegna þess að það sé búið að útkljá það að nytsemi og gagnsemi skipti einhverju máli, að það mun alltaf skipta máli, nytsemi og gagnsemi. Það mat hefur einhverju sinni farið fram þannig að þá kannski snýst þetta um samspil annarra þátta eins og verðs. (Forseti hringir.) En þá verður líka að huga að því að eins og þetta er í Noregi þá er þetta einstaklingsbundið mat í hverju tilviki.