Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

aðgengi að lyfjum.

[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp hér og raunverulega er spurt hvort kostnaðurinn sé hindrun við að samþykkja lyfið. Það finnst mér ekki, það á ekki að vera hindrun í þessu samhengi faglegra raka. Ég ber fullt traust til okkar sérfræðinga um að komast að þeirri niðurstöðu eins og hv. þingmaður dró hér fram. Það er alveg rétt að hér í upphafi var niðurstaðan sú að gagnsemi og nytsemi væri til staðar og klárlega fyrir þá sem eru 18 ára og yngri. Nú hafa forsendur breyst og vonandi getur lyfjanefndin unnið hratt og örugglega úr þessu. Það er hennar hlutverk og ég ber auðvitað fullt traust til hennar og mun styðja þá niðurstöðu. Ég geri ráð fyrir því að okkar dæmi geti farið á svipaðan veg og í Noregi. Ég veit að það er verið að taka þetta til endurskoðunar í Svíþjóð. Ég tel því fulla ástæðu til að fylgja þessu máli eftir.