Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru áhugaverðar pólitískar spurningar sem hv. þingmaður leggur hér fram og spyr mig um. Ég hef auðvitað tekið eftir því að það gætir ákveðins misskilnings um þetta mál í opinberri umræðu, langt umfram minn flokk, Sjálfstæðisflokkinn. Ég tel mikilvægt að það komi skýrt fram um hvað ræðir og ég er sammála hv. þingmanni í því að þetta mál er ekki stærra en það er. Þetta er árétting á því sem var ákveðið fyrir 30 árum síðan og komið hefur í ljós að er ekki nægilega örugglega innleitt eins og það stendur. Það var ekki að koma í ljós fyrir einhverjum vikum síðan, það var ekki að koma í ljós af því að ég kallaði eftir því að það kæmi í ljós af því að ég vildi svo gjarnan leggja fram frumvarp, og síðan hefur það verið spunnið í ýmsar áttir, heldur er um að ræða verkefni sem ég lít svo á að mér sé falið að leysa á meðan ég sit í því embætti sem ég sit í. Ef við ekki gerum það þá fer málið einhverja aðra leið, fer bara sína leið og kemur í ljós hvað verður um það. Ég tel skynsamlegra og ábyrgara, og ég tel mig þar vera að gæta að hagsmunum Íslands og Íslendinga, bæði einstaklinga og lögaðila, að bæta einfaldlega úr þeirri stöðu sem við erum í og laga þetta vandamál sem við okkur blasir með því að árétta skuldbindingu og loforð sem gefið var fyrir 30 árum síðan. Það er ekki stærra en það, það er ekki meiri eðlisbreyting en það. En vissulega finn ég fyrir því að málið er bæði umdeilt, ekki bara í mínum flokki (Forseti hringir.) heldur víðar í samfélaginu, og um það gætir ákveðins misskilnings sem mér finnst mikilvægt að sé leiðréttur hér í þessum stól áður en málið (Forseti hringir.) fær sína þinglegu meðferð og frekari umræðu úti í samfélaginu.