Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:44]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör og tek undir að það hljóti að vera svo að hægt sé að horfa til einhverra þeirra atriða, sér í lagi í ljósi þess að á sínum tíma var framkvæmdin í Noregi með aðeins öðrum hætti. En svo það sé sagt þá hef ég fullan skilning á því að þótt hér sé í rauninni bara verið að árétta gildandi rétt og verið að færa orðalagið, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, nær því sem Norðmenn gerðu á sínum tíma, þá tel ég mjög mikilvægt og í anda þess sem hefur komið fram hér að málið sé skoðað frá eins mörgum öngum og hægt er. Ég hef svo sem engu öðru við það að bæta annað en að þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir mjög skýra og heiðarlega framsögu með málinu.