Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En hversu trúverðug getur málshöfðunarhótun ESA verið þegar hún kemur fram 30 árum eftir að regluverkið er sett? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til svona mögulegra tómlætissjónarmiða sem hefðu nú verið viðhöfð af minna tilefni en því að bíða í 30 ár með að láta til skarar skríða í þessu máli og 20 til að nefna það á nafn einu sinni? Það hlýtur að vera vafa undirorpið hversu trúverðug þessi afstaða ESA er. Ég bara ítreka það sem ég sagði hér í fyrra andsvari: Það með hvaða hætti málið kemur frá ESA finnst manni að einhverju marki benda til þess að það snúist mögulega frekar um mönnun heldur en annað, að áhuginn vakni áratugum eftir að innleiðing hefur átt sér stað hér með þeim hætti sem hún var framkvæmd árið 1992. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra um mat hennar á trúverðugleika þessarar málshöfðunarhótunar (Forseti hringir.) í ljósi þess að hún kemur fram þremur áratugum eftir að regluverkið er sett.