Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Þarna erum við kannski komin að kjarna vandans sem við okkur blasir í tengslum við alþjóðaflugið núna og það regluverk sem var samþykkt í gær í Evrópuþinginu. Þar erum við Íslendingar af einhverjum furðulegum ástæðum búin að múlbinda okkur með Evrópusambandinu hvað varðar loftslagsmál og tengdar aðgerðir. Svokallaður „Fit for 55“-aðgerðapakki Evrópusambandsins hefur ekkert með fjórfrelsi EES-samningsins að gera. Það er ákvörðun stjórnvalda að óska eftir því að ESA hafi eftirlit með þeirri framkvæmd, ef ég skil það rétt, en það er einmitt flugið sem er mögulega, ef á versta veg fer, að verða fyrir gríðarlegum skakkaföllum vegna óskiljanlegrar fylgispektar okkar í garð (Forseti hringir.) loftslagsæfinga Evrópusambandsins og við verandi raunverulega best í heimi í þeim efnum. Með það í huga þá er þetta óskiljanlegt.