Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það er auðvitað þannig að það eru fleiri en Evrópusambandið sem bíða með opinn faðminn. Það eru ótal margar þjóðir sem halda á sínum utanríkismálum á forsendum tvíhliða samninga í meginatriðum en eru ekki til að mynda aðilar að bandalagi eins og Evrópusambandinu. Þannig að valkostirnir eru fleiri. Ég verð auðvitað að segja eins og rétt er að faðmur okkar Miðflokksmanna stendur auðvitað opinn þeim sem tala skynsamlega í þessum efnum og hefur alltaf gert.

Varðandi frelsið þá held ég að það sé alltaf rétt að því oftar sem við tölum um fullveldi því skýrara er í huga okkar mikilvægi fullveldisréttarins og fullveldis þjóðarinnar. Rifjum bara upp Icesave-málið, uppgjörið við kröfuhafana. Þá var grundvöllur þess sem við gátum gert þar, sem tryggði mesta og hraðasta efnahagslega viðsnúning sennilega í seinni tíma sögu nokkurrar vestrænnar þjóðar, það var fullveldisrétturinn. Þannig að við megum ekki vanmeta hann.