Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[18:48]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður þylur hér upp það sem við verðum að samþykkja eins og það komi honum stórkostlega á óvart verð ég að segja að mér finnst það ekkert sérstaklega trúverðugt. Hv. þingmaður gerir sér fyllilega grein fyrir því hvað felst í EES-samningnum, hvaða skuldbindingar við þurfum að innleiða hér og hvaða reglur. Það liggur alveg kýrskýrt fyrir hvað felst í EES-samningnum og hvað felst ekki í honum og við erum þar af fúsum og frjálsum vilja sem fullvalda sjálfstæð þjóð. Ég verð að segja að þrátt fyrir stórskemmtilega reynslu mína af þriðja orkupakkanum og því hugsjónalega samfloti sem hv. þingmaður var í á sínum tíma, með fólki sem hélt því virkilega fram að hér yrðu Íslendingar illa lyktandi og rafmagnslausir og vatnslausir ef þriðji orkupakkinn yrði samþykktur, þá eru það samt sár vonbrigði að fylgjast með hv. þingmanni hér í ræðustól að halda fram hlutum eins og þeim að við hefðum ekki risið upp úr öskunni eftir efnahagshrunið ef við hefðum verið búin að samþykkja frumvarp líkt og það sem hæstv. utanríkisráðherra ber hér á borð. Hann heldur því fram að þátttaka okkar sem frjáls og fullvalda þjóð í alþjóðlegu samstarfi sé einhvers konar skerðing á fullveldinu, ekki notkun á fullveldinu. Og ég spyr: Af hverju talar hv. þingmaður ekki meira um Icesave-málið? Er ekki tilefni til að rifja Icesave-málið upp hér? Kristallast þar ekki einmitt kostir EES-samstarfsins? Hvernig hefðu lyktir þess máls annars verið ef við hefðum staðið utan EES-samstarfsins? Hv. þingmaður verður hreinlega að vísa til þess á hverju hann byggir þessa dómsdagsspá sína, að þessar breytingar muni leiða yfir okkur slík ragnarök, á öðru en eigin hugrenningum. Það er lágmarkskrafa sem við gerum hér.