153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

alþjóðlegar þvingunaraðgerðir og frysting fjármuna.

974. mál
[18:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.

Frumvarpið var unnið í utanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og Skattinn sem fara með eftirlitshlutverk samkvæmt lögunum.

Frumvarpið felur í sér að tvenn núgildandi lög verða sameinuð í ný heildarlög, annars vegar lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008, og hins vegar lög um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, nr. 64/2019. Þannig verður með heildstæðum hætti í einum lögum fjallað um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, þar með talið frystingu fjármuna vegna slíkra aðgerða og um skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir.

Með nýrri heildarlöggjöf verður framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða hér á landi betur samræmd og skýrari fyrir almenning, viðskiptalífið og stjórnvöld og þar með skapast betri heildaryfirsýn yfir málaflokkinn. Á síðustu árum hefur fjöldi þvingunaraðgerða sem Ísland tekur þátt í margfaldast, ekki síst eftir ólögmæta yfirtöku Rússlands á Krímskaga 2014 og innrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þessi mikla aukning og sú reynsla sem fengist hefur, gaf einnig tilefni til endurskoðunar ýmissa ákvæða framangreindra laga þannig að staðið sé með tryggum hætti að innleiðingu og framkvæmd slíkra alþjóðlegra skuldbindinga.

Helstu breytingar sem gerðar eru frá gildandi lögum eru að meginstefnu þrenns konar:

Sett eru ný ákvæði um eignaupptöku, landgöngubann og bann við efndum krafna. Þessar tegundir þvingunaraðgerða eru, ásamt frystingu fjármuna, algengustu tegundir þvingunaraðgerða og ástæða til að festa þær skýrar í sessi.

Í annan stað er í frumvarpinu verið að skerpa á skyldu tilkynningarskyldra aðila, sem eru aðallega fjármálastofnanir, til þess að skima viðskiptamenn sína og einnig raunverulega eigendur lögaðila.

Loks er í frumvarpinu nýtt ákvæði um skyldu tilkynningarskyldra aðila að tilkynna eftirlitsaðilum, lögreglu og utanríkisráðuneytinu um ráðstafanir viðskiptamanna sem gripið er til í því skyni að komast hjá þvingunaraðgerðum. Slíkar ráðstafanir eru brot á þvingunaraðgerðum og mikilvægt að eftirlitsaðilar, lögregla og ráðuneytið séu upplýst um slíkar ráðstafanir svo hægt sé að rannsaka slík brot og eftir atvikum ákæra fyrir þau.

Breytingum sem lagðar eru til og haft hefur verið samráð um er ætlað að tryggja gagnsæi og skýrleika, en jafnframt að þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir séu innleiddar með tryggum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar og 2. umr.