Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að viðurkenna að maður stressast alltaf aðeins upp þegar koma fram frumvörp sem snúast um að slaka á einhverjum kröfum sem snúa að öryggi fólks þannig að ég vona að hér hafi verið búið vel um þá tímabundnu undanþágu sem hér er lagt til að festa í lög. Nefndin á töluvert verk fyrir höndum af því að þetta eru nú sennilega lengstu ákvæði íslensks lagasafns, ef þau verða samþykkt, telja hvort um sig tvær síður í frumvarpi. Man ekki eftir að hafa séð annað eins áður. Varðandi aðdragandann að þessu máli er kannski hægt að segja að þetta byrji allt saman með innrás Rússa í Úkraínu. Þá tendrast sá eldur sem hér þarf að bregðast við. Það er þannig rúmt ár sem stjórnvöld hafa haft til að gera ýmsar ráðstafanir til að tryggja fólki á flótta viðunandi húsnæði. Vissulega þarf drjúgan tíma til að fara hina hefðbundnu leið en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvort þær hefðbundnu leiðir hafi verið fullreyndar á síðasta ári. Þarna nefndi ráðherrann húsnæði sem er í eigu ríkisins og ætti þess vegna að vera dálítið framarlega í forgangsröðuninni þegar kemur að því að skoða þetta. Var eitthvað af þessu reynt á síðasta ári? Í öðru lagi var þetta frumvarp boðað fyrir rúmum mánuði með tilkynningu á vef Stjórnarráðsins og satt best að segja að þá bjuggumst við hér á þingi við að frumvarpið myndi líta dagsins ljós fyrir páska. Það var talað þannig að málið væri brýnt og þyldi varla bið. Hvað veldur því að svo langur tími leið frá því að frumvarpið var boðað og þangað til að það kemur hér til kasta þingsins?