Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:17]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það verður alltaf hafa varann á þegar gefinn er einhvers konar afsláttur af ferlum og þeim reglum sem við almennt höfum og ætli það sé ekki líka að hluta til skýringin á því að frumvarpið hefur aðeins tafist. Menn hafi tekið sér meiri tíma til að fara yfir ákveðna hluti. Það er hins vegar þannig að sumar af þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín varða kannski meira þá ráðherra sem hafa með þennan málaflokk að gera. Ástæðan fyrir að ég mæli fyrir þessu er að þetta varðar skipulags- og byggingarlöggjöfina en ekki forsendurnar fyrir breytingunum. Ég veit það þó og hef setið slíka fundi að Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hafa reynt að nýta allar þær hefðbundnu leiðir sem fyrir lágu og menn kannski gerðu sér ekki ljóst að þessi fjöldi sem hingað hefur sótt myndi halda áfram að vaxa. Ég held að við öll höfum borið þá von í brjósti að stríðinu í Úkraínu myndi ljúka hratt og vel en það virðist ekkert vera lát á því og þar af leiðandi ekki þeim fjölda flóttamanna sem þaðan kemur. Svo þekkjum við auðvitað umræðuna um þann fjölda Venesúelabúa sem hingað hefur komið og þeir jafnvel verið fleiri á sama tíma, sem kannski ekki var fyrirséð þar sem þeir hafa ekki fengið vernd í öðrum Evrópuríkjum. Ég held að vandinn hafi smátt og smátt ágerst og smátt og smátt kláraðist allt hefðbundið húsnæði og þá fór Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir að horfa til þess að aðrar eignir í eigu ríkisins væru nýtanlegar en til þess að það yrði hægt án þess að það tæki tvö eða þrjú ár þá þyrfti að fara þessa leið. Það er ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er komið hérna, við í innviðaráðuneytinu erum einfaldlega að bregðast við innan þess ramma sem við höfum til að hjálpa þeim aðilum sem taka á móti og sjá um móttöku flóttamanna svo þeir geti brugðist við.