Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:24]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að sveitarfélög og ríki gangi nánast hönd í hönd í málefnum sem varða svona hluti og við í innviðaráðuneytinu höfum þess vegna lagt mjög ríka áherslu á það, eðlilega sem sveitarstjórnarráðuneyti, að allar aðgerðir sem lúta að þessum málaflokki og við eigum einhverja aðkomu að séu gerðar í nánu samráði og samtali frá fyrsta tíma við sveitarfélögin. Það var gert í þessu tilviki og haft samband við Samband íslenskra sveitarfélaga um það.

Varðandi síðan þessar mismunandi byggðir er það alveg rétt, það er auðvitað um að ræða verslunar- og þjónustusvæði eða athafnasvæði þar sem er blönduð byggð en iðnaðarsvæðin eru undanskilin vegna þess að þau eru einmitt ætluð til grófari iðnaðar og geta þar af leiðandi verið mengandi. Þau koma þess vegna ekki til greina en í raun og veru öll önnur athafnasvæði atvinnulífs.

Hvað ætlum við að gera til framtíðar? Í raun og veru eru þessar sérstöku aðstæður uppi þar sem við vitum eiginlega ekkert hvað margir koma hingað og eigum erfitt með að áætla það. Það er svolítið áskorunin. En ef við hugsum að það komist einhvern tímann á einhvers konar yfirstjórn og fáist sýn á það þá er mikilvægt að við mat stjórnvalda á íbúðaþörf, þ.e. viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og síðan ríkisins í heild sinni, verði m.a. litið til þess hve mikið áætlað sé að þurfi af varanlegu húsnæði fyrir fólk á flótta sem hefur fengið alþjóðlega vernd og kýs að setjast hér að til lengri eða skemmri tíma. Það verði þar af leiðandi að gera ráð fyrir slíku húsnæði í uppbyggingaráformum stjórnvalda, enda mikilvægt að ef við erum með slíkt kerfi, sem við erum með, þá sé það hluti af því að við getum skaffað eðlilegt húsnæði.