Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:27]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get mjög auðveldlega tekið undir sjónarmið hv. þingmanns um að svona úrræði eigi að nota í neyð og sem minnst, enda er þetta undanþága og hún verður tímabundin. Ef menn hugsa sér að þessi breyting verði eitthvað varanlegri þá þurfi að fara í gegnum hefðbundið ferli og það er líka skrifað líka út í frumvarpinu þannig að það er talsvert hugsað fyrir því. Það er líka þannig að við vorum með starfshópa í kjölfarið á hinum hörmulega bruna á Bræðraborgarstíg og þar var einn starfshópur settur síðan til að skoða aðstæður fólks sem býr í atvinnuhúsnæði, óleyfisbyggð. Ein af niðurstöðunum þar var sú að á meðan við erum ekki búin að byggja nóg þá gætum við þurft að lögleiða slíka búsetu. Þessi hópur er að störfum og mun skila vinnu núna í vor eða í sumar. Þá gæti komið til álita að framkvæma eitthvað sambærilegt gagnvart slíkri byggð en hún yrði líka að vera tímabundin þangað til við erum búin að byggja almennilegt húsnæði yfir alla.