Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

1028. mál
[14:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir svarið og ég er mjög ánægður að heyra að við verðum að vinna þetta vel. Það er líka von mín að í þessu frumvarpi sé ekkert sem gefur afslátt á öryggi og heilsu fólks. Bara af því að þetta eru hælisleitendur sem koma erlendis frá, megum við ekki gefa afslátt á slíkum hlutum. Mig langaði í því sambandi líka að benda þeirri nefnd sem fær þetta til sín á að það eru til svokölluð lágmarksviðmið þegar kemur að fólki á flótta. Það er svokölluð Sphere-handbók sem var gefin út síðast 2018, þar sem m.a. er tekið á því hversu margir mega að vera á einum stað, hversu mörg klósett þurfi að vera, hversu mikið vatn þarf að vera aðgengilegt og allt þetta sem skiptir máli.