Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:23]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sína ágætu ræðu. Það kom fram í máli hv. þingmanns að við værum að taka of lítil skref og sömuleiðis kom þingmaðurinn inn á að það yrði kannski bara einn bátur sem færi af stað eða tveir. Ég held nefnilega að það sé ágætt. Einhvers staðar þarf að byrja og ég held að þetta sé ágætt fyrsta skref í því. Hv. þingmaður kom réttilega inn á það í sinni ræðu að innviðir væru ekki klárir, við vitum það og það vita allir. Ég beini því bara til þingmannsins hvort við getum ekki verið sammála um að það skref sem verið er að taka núna sé ágætt fyrsta skref. Við vitum líka að þróunin hefur verið gríðarhröð þegar kemur að mótorum sem ganga fyrir rafmagni. Við sáum það ekki fyrir fyrir tveimur árum síðan að við myndum fá hér vörubíla sem keyra á milli Reykjavíkur og Akureyrar knúnir rafmagni. Ég minnist þess ekki að menn hafi horft svo langt fram. Ég spái því að sú þróun sem kemur til með að verða í þessu verði hröð. Ég hef ekki svo stórkostlegar áhyggjur af því að hvatarnir sem við erum með séu of litlir, væntanlega kemur inn í þetta verð á mótorum og þeir eiga eftir að verða ódýrari. Fyrsta skrefið er alltaf dýrast þegar það er tekið, en eins og áður sagði spái ég því að þróunin eigi eftir að verða hröð. Ég hef mestar áhyggjur af því að við verðum ekki klár með alla þá innviði sem þarf þegar við þurfum að setja trilluflota landsmanna í samband.