Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

tónlist.

542. mál
[16:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú sit ég ekki í umræddri nefnd þannig að ég þekki í rauninni ekki umræðuna sem hefur átt sér stað um þetta. Ég í sjálfu sér fagna þessum aðgerðaáætlunum sem er verið að ráðast í varðandi einstakar listgreinar og legg áherslu á það að ef frumvarpið er til þess fallið að styrkja Sinfóníuhljómsveit Íslands þá fagna ég því sérstaklega af því að hún skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Mig langar þó að heyra frá hv. þingmanni hvort eitthvað hafi verið rætt um að styrkja með formlegum hætti tónlistarlíf víðs vegar um landið. Það er sinfóníuhljómsveit á Norðurlandi sem starfar auðvitað með allt öðrum hætti heldur en Sinfóníuhljómsveit Íslands og reiðir sig ekki á sömu fjárframlög hlutfallslega, alls ekki, langt frá því. Akureyrarbær kemur verulega að starfrækslu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands líka.

Ég held að fólk þurfi nú aðeins að velta því fyrir sér að í landi þar sem íbúaþróun hefur verið með þeim hætti að á síðustu 100 árum hefur höfuðborgin farið úr því að vera 11–12% af landsmönnum yfir í að vera 75–80% — hvort þingmenn hv. nefndar hafi virkilega ekkert velt því fyrir sér hvort það væri kannski tilefni til að stíga einhver formlegri skref til að stuðla að viðgangi tónlistar á stærri stöðum úti á landi, t.d. á Akureyri, heldur en gert hefur verið. Við þekkjum það vel að menningarsamningurinn sem var gerður við Akureyrarbæ um listasafnið, um leikhúsið og um sinfóníuhljómsveitina er auðvitað bara hlutfallslega brotabrot af því sem er verið að verja til þessara stofnana hér. Þrátt fyrir að ég átti mig auðvitað á því að allar höfuðstofnanir á sviði lista verði að vera í Reykjavík og eigi að vera í Reykjavík (Forseti hringir.) þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að nefndin hefði tekið smá lykkju á leið sína til að fjalla aðeins um þessar mikilvægu menningarstofnanir úti á landi.