Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Morgunblaðið fjallaði um það í gær að ekkert lát væri á veiðum rússneskra togara á úthafskarfa á Reykjaneshrygg sem íslensk stjórnvöld og Alþjóðahafrannsóknaráðið hafa reynt að friða. Við höfum neitað rússneskum togurum um þjónustu í íslenskum höfnum en vinir okkar í Færeyjum hafa veitt þeim fulla þjónustu í staðinn og það þrátt fyrir að Danmörk hafi fyrir hönd Færeyja og Grænlands undirritað bann Norðaustur- Atlantshafsfiskveiðiráðsins um bann við karfaveiðunum. Þetta þýðir það að rússneskir togarar sigla á miðin í gegnum íslenska lögsögu og aftur til Færeyja með afla á grundvelli alþjóðalaga um siglingarfrelsi. Þar veldur sérstökum áhyggjum að þar á meðal eru rússneskir togarar sem hafa verið staðnir að því að toga yfir fjarskiptastrengi út af Svalbarða. Við erum því miður farin að sjá ákveðið mynstur í vinalegum sérhagsmunasamskiptum Færeyja við Rússland. Þannig endurnýjuðu Færeyingar til að mynda nýlega umdeildan fiskveiðisamning við Rússland. Færeyingar virðast ekki taka hlutverk sitt alvarlega varðandi samstöðu með öðrum vestrænum lýðræðisríkjum um þessar mundir. Reyndar hafa líka heyrst raddir hérlendis, og heyrast enn, um að fleygja samstöðunni við evrópsk ríki fyrir viðskiptahagsmuni. Sem betur fer fá þær raddir ekki mikinn hljómgrunn.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt inn fyrirspurn til hæstv. matvælaráðherra um framferði Færeyinga varðandi karfaveiðarnar og óska eftir upplýsingum um hvort stjórnvöld hafi tekið þetta mál upp við Færeyinga og sömuleiðis um viðbrögð stjórnvalda við þeim aðstæðum sem eru komnar upp, sem eru óboðlegar.