Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur félagsskapur einn í Brussel sem kallar sig AIB tekið fyrir sölu upprunavottorða vegna raforku framleiddrar á Íslandi, hinna svokölluðu aflátsbréfa. Þetta mun vera vegna þess að einhverjir sem framleiða vörur á Íslandi og nýta til þess hreina, endurnýjanlega orku hafi sagt frá því án þess að borga sérstaklega fyrir að fá að segja satt. Hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra benti á þetta, að grunur léki á að einhverjir væru að státa sig af því að vera að framleiða vörur á Íslandi án þess að hafa til þess leyfi.

Þetta er sérkennilegt mál í alla staði, herra forseti, og nú er hafin umræða um það að Alþingi þurfi að breyta lögum til að tryggja að þessi svikamylla, sem sumir myndu kalla svo, geti haldið áfram að starfa. Ég held að Alþingi ætti nú að fara mjög varlega í slíkt, ég tala nú ekki um nú þegar fyrir liggur að þessi ríkisstjórn vill ekki framleiða neina nýja orku nema í orkuskipti. Með öðrum orðum: Það verður ekki í boði hér um fyrirsjáanlega framtíð ný hrein orka til að auka verðmætasköpun í landinu. Við ættum því að leitast við að nálgast umhverfismálin út frá raunveruleikanum, staðreyndum, en ekki einhverjum leiktjöldum eins og allt of oft sést í þeim málaflokki. Alþingi vill varla lögleiða og festa í sessi kerfi þar sem menn geta borgað fyrir að fá að segja ósatt og þurfa að greiða fyrir að fá að segja sannleikann.