Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

kosningalög.

497. mál
[15:48]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, jákvæð upplifun þeirra ríkja sem hafa stigið þetta skref er alveg skýr. Þau hafa mörg valið að stíga hluta leiðarinnar fyrst og síðan víkkað það út. Gott dæmi um það er Skotland sem lækkaði kosningaaldurinn í þjóðaratkvæðagreiðslu 2014, ef ég man rétt. Það gekk svo glimrandi vel og vakti svo mikla lukku að skoska þingið ákvað að hrinda hinu sama í framkvæmd á öllum þeim stjórnsýslustigum sem þau hafa sjálfdæmi um. Þau hafa hins vegar lent á vegg þegar kemur að því að lækka kosningaaldur við þingkosningar til breska þingsins vegna þess að þar stendur íhaldið í Lundúnum í vegi fyrir því. Eins má nefna að þetta er hugmynd sem hefur breiðst út svona hægt og bítandi á milli þýsku sambandslandanna og er að verða búin að gera landið gegnsósa þannig að nú er á stefnu þeirrar ríkisstjórnar að lækka kosningaaldur á landsvísu líka. Allt hefur þetta gerst hægt og bítandi frá því að Austurríki reið á vaðið 2007, ef ég reikna rétt þá eru 16 ár síðan þannig að einhvern tíma hefur þetta tekið. En ég held einmitt, bara eins og ég heyri á hv. þingmanni, að lykilatriðið í þessu sé að þetta er þróun sem er eiginlega óhjákvæmilegt að verði. Þetta er skref sem mun verða tekið og mér finnst skipta máli að við gerum það fyrr frekar en síðar til þess að samfélagið fái notið þess ábata sem fylgir því að breikka lýðræðið út með þessum hætti.