153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

undanþágur fyrir Ísland vegna losunarheimilda.

[13:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir það alla vega hreint út að markmiðið sé að fólk sé ekki að fljúga svona mikið. Menn eigi ekki að vera að þvælast eins mikið og þeir gera núna. Á sama tíma er gríðarleg uppbygging í gangi í Keflavík vegna spár um vaxandi fjölda farþega og á sama tíma er ríkisstjórnin að vinna að því að fækka þeim. En þessi breyting sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér að ætti að eiga sér stað í upphafi árs 2027, lagar ekki alla gallana við þetta mál, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur meira að segja sjálfur bent á í bréfi og með gögnum til Ursulu von der Leyen. Það er ekki annað að sjá en að ríkisstjórnin sé að láta plata sig. Með afslætti í tvö ár þá ætlar hún að gangast undir þetta. Og menn geta rétt ímyndað sér hvernig það mun ganga að semja við Evrópusambandið þegar búið er að festa okkur í þessa hlekki og kemur á daginn hversu skaðlegt það er. (Forseti hringir.) Þá þýðir ekkert að reyna að snúa Evrópusambandið niður. Það verður búið að gefa stöðuna eftir.