153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

undanþágur fyrir Ísland vegna losunarheimilda.

[13:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það vakna ýmsar spurningar við þessa seinni fyrirspurn hv. þingmanns. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það er mikilvægt markmið að draga úr losun frá flugi alveg eins og í öllum öðrum geirum? Það var það sem ég sagði hér í mínu fyrra svari. Það er mikilvægt markmið. Og það sem meira er, ég hef fulla trú á því að það muni takast. Ég hef áður rætt við hv. þingmann um fyrstu rafflugvélina og ég held að við eigum eftir að sjá ótrúlega hraða þróun á því sviði hvað varðar græna orkugjafa, fyrst á styttri vegalengdum og síðar á þeim lengri. Hins vegar er það svo að samkeppnisstaða okkar var skert vegna landfræðilegrar legu á þessu tímabili þar sem ekki er búið að breyta kerfinu hvað varðar flug út úr EES-svæðinu. Við erum að sjálfsögðu búin að slá þann fyrirvara að ef sú breyting verður ekki þá breytir það að sjálfsögðu myndinni. Það sem ég tel mikilvægast í þessu er að með þessum sameiginlega skilningi liggur fyrir viðurkenning á sérstöðu Íslands. Sú viðurkenning mun liggja jafn mikið fyrir ef einhverjar breytingar verða á áformum Evrópusambandsins.

Fyrir mér snýst þetta mál um tvennt. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu tökum við þátt í því að draga úr losun frá flugi eins og í öllum öðrum geirum. En ekki hvað? Og sérstaða Íslands er viðurkennd og þar með er verið að tryggja okkar þjóðhagslegu hagsmuni í þessu máli.